Endurskoða þarf íslenska námslánakerfið þar sem námsskuldir fylgja fólki inn í ellina. Þetta segir Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður Bandalags háskólamanna. Niðurstöður kjarakönnunar bandalagsins voru kynntar í gær. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Niðurstöðurnar sýna að helmingur svarenda finnst endurgreiðsla lánanna íþyngjandi eða verulega íþyngjandi. 22 prósent svarenda munu enn verða að greiða af námslánum á eftirlaunaaldri. Einnig kemur fram í niðurstöðunum að konur séu lengur að greiða af námslanum en karlar en endurgreiðslur lánanna eru tekjutengdar. „Laun háskólamenntaðra eru of lág til að vega upp kostnað við öflun þekkingar eins og staðan er núna. Við getum ekki unað við það," segir Guðlaug.