Í verksmiðjum Loftorku í Borgarnesi, á Akureyri og á Kjalarnesi eru nú um 250 manns í vinnu. Um helmingur af starfsliðinu er útlendingar, en yfirmenn eru að stærstum hluta íslenskir.

Þetta kemur fram í viðtali við Óla Jón Gunnarsson, framkvæmdastjóra verkefnasviðs Loftorku í Borgarnesi, í Viðskiptablaðinu í dag. Óli Jón segir ekkert lát á sölu forsteyptum einingum frá verksmiðjum fyrirtækisins í Borgarnesi, Akureyri og á Kjalarnesi. "Það er líflegt og mikið að gera og við verðum ekki varir við að neitt lát sé á eftirspurn á markaði. Það er mikið sent til okkur af teikningum þar sem fólk er að biðja okkur um tilboð og er greinilega mikil eftirspurn. Við sjáum því ekki ástæðu til annars en að vera bjartsýnir."

Litasteypustöð var tekin í notkun í einingaverksmiðjunni í Borgarnesi í síðasta mánuði. Steypustöðin er búin sex efnissílóum og tveimur sementssílóum. Afkastageta stöðvarinnar er 30 rúmmetrar á klukkustund. Megin verkefni stöðvarinnar er framleiðsla á litaðri áferðarsteypu fyrir veggeiningar. Þegar má sjá dæmi um slíka framleiðslu í tvílitum einingum í blokkir sem verið er að byggja í Helluvaði 7 til 21 í Norðlingaholtinu, austast í Reykjavík.

Litasteypustöðin er staðsett við framleiðslulínu veggeininga í verksmiðjunni. Óli Jón segir að með framleiðslulínunni, sem er viðbót við hefðbundna framleiðslu á borðum, náist mun meiri afköst og því sé raunverulega hægt að tala um fjöldaframleiðslu veggeininga. Ganga mótin þá áfram á hjólaborðum skref af skrefi þar til búið er að steypa og einingunum komið fyrir í þurrkofni. Loftorka er með 24 borð sem eru 12 sinnum 3,6 metrar að stærð í þessari línu og nokkur borð að auki þar sem gömlu aðferðinni er beitt.

Óli Jón segir stöðugan og mikinn vöxt vera í framleiðslu forsteyptra eininga hér á landi. Bæði sé um einstaklinga sem eru farnir að nýta sér þennan byggingarmáta í auknum mæli, sem og byggingaverktaka. Slíkt spari mikinn tíma á byggingastað og um leið fjármuni.

"Það er umtalsverð aukning meðal einstaklinga sem eru að byggja og þá stundum með sökklum líka. Þetta styttir framkvæmdatímann mjög verulega og tíminn er peningar í þessum bransa. Þá erum við að fá pantanir í verulega auknum mæli frá verktökum."

Bryddað hefur verið upp á fleiri nýjungum hjá Loftorku á undanförnum misserum. Þar má t.d. nefna kúluplötur þar sem Loftorka framleiðir neðri hluta loftplatna, með járnabindingum og í steyptum plastkúlum sem taka verulegan hluta af rúmtaki plötunnar. Á byggingarstað er síðan steypt efra lagið með tilheyrandi efribrúnarjárnagrind og lögnum, en með þessu spara menn sér líka mikinn undirslátt á byggingarstað. Með plastkúlunum er hægt að létta plötuna til mikilla muna þar sem mun minni steypa er notuð en ella sem minnkar þörf á súlum, burðarbitum og burðarveggjum. Meðal bygginga sem verið er að reisa með þessari aðferð er stórhýsi við Borgartún, í nýju Morgunblaðshöllinni, Vogaskóla og víðar. Þá verður þessari tækni beitt í Háskólatorginu sem verið er að byggja.