Rétt rúmleg helmingur þeirra stjórnenda, sem ráðið hafa fólk í vinnu síðustu tvö árin, réðu starfsmann sem ekki stóð undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar. Er þetta meðal niðurstaðna könnunar, sem Capacent gerði meðal íslenskra stjórnenda í júní 2011. Greint er frá niðurstöðunum í blaðinu Straumar, sem gefið er út af Capacent og fylgdi með Viðskiptablaðinu í dag.

Af þeim 407 stjórnendum, sem ráðið höfðu starfsmann síðustu 2 árin, höfðu 52% þeirra ráðið manneskju sem ekki stóð undir væntingum. Áhugavert er að sjá að 13% þeirra töldu að ráðningin hefði haft mjög mikil eða frekar mikil neikvæð áhrif á afkomu fyrirtækisins. Eftir því sem fyrirtækið er smærra því líklegra er að ráðningin hafi haft neikvæð áhrif á afkomu þess.

Í greininni, sem rituð er af Gunnari Haugen, framkvæmdastjóra Capacent ráðninga, kemur einnig fram að mun sjaldgæfara er að íslensk fyrirtæki noti aðferðir eins og sálfræði- eða getupróf við ráðningar en sambærileg fyrirtæki í Bretlandi. Tilfinning Gunnars er aftur á móti sú að vinnubrögð íslenskra fyrirtækja þokist í rétta hátt og að áframhaldandi innleiðing á vönduðum vinnubrögðum við ráðningar muni skila árangri.