Sumarbústaðir á Íslandi voru tæplega 13 þúsund talsins í lok árs 2015 og hafði fjölgað um 70 prósentustig frá árinu 1997. Fjölgunin var mun meiri í upphafi tímabilsins en á síðustu árum. Sumarhúsum fjölgaði um 24 prósentustig milli áranna 2000 og 2005, en um tæp 9 prósentustig á árunum 2010 til 2015. Þetta er meðal þess sem kemur fram í greiningu Landsbankans á sumarhúsamarkaðnum á Íslandi.

„Um það bil helmingur sumarhúsa á landinu var á  Suðurlandi í árslok 2015 og um fimmtungur á  Vesturlandi. Um 70% allra sumarhúsa á landinu er  því á þessum tveimur svæðum. Vinsældir þessara  svæða koma eflaust mikið til út af því að ferðatími frá höfuðborginni er tiltölulega lítill,“ er meðal þess sem kemur fram í greiningunni.

Hrun í viðskiptum 2008

Sala sumarhúsa hefur aukist jafnt og þétt frá árinu 2008, en það árfækkaði viðskiptum snarlega. Salan jókst svo aftur árið 2009. „Sala sumarhúsa snarminnkaði á Suðurlandi árið 2008, en jókst svo aftur 2009. Á Vesturlandi minnkuðu viðskipti bæði 2008 og 2009  og sama má segja um Norðurland.  Viðskipti hafa  aukist  mest á eftirsóttustu svæðunum sem eru í um klukkutíma til eins og hálfs tíma akstursfjarlægð frá höfuðborginni,“ segir í greiningunni.

Verðin hafa hækkað - sum staðar

Verð á sumarbústöðum hafa hækkað sér í lagi á eftirsóttum stöðum á borð við Suðurland, í Grímsnesi, á Þingvöllum og í Skorradal. Nokkur veltuaukning hefur orðið á markaði með sumarhús, og þá sér í lagi með ódýrari sumarhús, á síðastliðnum árum.

„Þegar upplýsingar um söluverð sumarhúsa frá Þjóðskrá eru skoðaðar kemur í ljós að engar upplýsingar liggja fyrir um gæði seldra eigna, svo sem stærð, ástand og aldur. Það hefur því mikil áhrif á birtar tölur hvers konar hús er verið að selja. Þannig gæti mikið framboð og kaup á nýjum sumarhúsum á ákveðnum svæðum nær örugglega haft áhrif á verðtölur upp á við. Frá árinu 2010 hefur verðþróunin verið stöðug upp á við á Suðurlandi og verðhækkunin var rúm 20% frá 2010 til 2015. Verðið hækkaði mikið á Vesturlandi frá 2008 til 2011, en lækkaði þá aftur og hefur ekki náð sér á strik.

Verðin voru svipuð bæði á Suður og Vesturlandi 2015 og þau voru 2008. Verð á Norðurlandi tóku mikinn kipp frá 2009-2011 en hafa farið stöðugt lækkandi síðan þá. Verðin á Norðurlandi voru engu að síður um 40% hærri 2015 en þau voru 2008.

Séu meðalfermetraverð á öllum svæðum á landinu borin saman má sjá að þau voru hæst á Suðurlandi og töluvert þar fyrir neðan voru Norðurland og Vesturland. Verð á öðrum svæðum var töluvert lægra,“ er einnig tekið fram í ítarlegri greiningu Landsbankans á sumarhúsamarkaðinum.