Viðbúið er að á næstu mánuðum eða vikum muni ríkisstjórnin kynna áform um að fækka sveitarfélögum landsins. Sé mið tekið af mannfjölda sveitarfélaga síðastliðin áramót er rúmlega helmingur undir þeim mörkum sem líklegt er að miðað verði við.

Í vor var kynnt til samráðs grænbók um málefni sveitarfélaga en hún var unnin af starfshópi ráðherra um málefni sveitarfélaga. Vinna hópsins byggði meðal annars á skýrslu starfshóps um stöðu og framtíð sveitarfélaganna og áfangaskýrslu nefndar um endurskoðun á jöfnunarframlögum jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Í grænbókinni er að auki vikið að ávarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, á þingi Sambands íslenskra sveitarfélaga síðasta haust. Benti ráðherra þar á að meira en helmingur sveitarfélaga landsins telur færri en þúsund íbúa og ríflega þriðjungur þeirra hafi færri en 500 íbúa. Ræddi hann þar þá hugmynd að á næstu fjórum til átta árum myndu ríkið styðja sveitarfélög til sameiningar, til að ákveðinn lágmarksíbúafjöldi myndi nást, en eftir þann aðlögunartíma yrði um skyldubundnar sameiningar að ræða án íbúakosningar um efnið. Lágmarkstalan þúsund íbúar hefur verið nefnd í þessu samhengi. Tillögurnar hafa enn ekki komið fram með formlegum hætti en búist er við þeim á næstunni.

„Það er ekkert samasemmerki milli íbúafjölda og hvort sveitarfélag sé sjálfbært eða stærðar og þjónustustigs. Það eru margar leiðir til að styrkja sveitarfélagastigið aðrar en að horfa bara á höfðatölu,“ segir Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri Grýtubakkahrepps.

„Í stjórnarskránni er sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga og íbúa þeirra tryggður. Ég held það höggvi ansi nærri stjórnarskránni að þvinga menn til sameiningar,“ segir Þröstur. Af umræðunni megi oft draga þá ályktun að stjórnsýslan sé faglegri og sterkari eftir því sem sveitarfélögin séu stærri og fjölmennari. „En hvar er það sem stjórnsýslan er að klikka? Braggamálið kom ekki upp í litlu sveitarfélagi úti á landi heldur því stærsta. Hvar heyrir þú talað um leikskólavandamál? Ekki hjá litlu sveitarfélögunum. Það fer ekki saman hljóð og mynd.“

Nánar er rætt við Þröst í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Einnig er rætt við Þorstein Gunnarsson, sveitarstjóra Skútustapahrepps, og Björn Ingimarsson, formann sameiningarnefndar Sveitarfélagsins Austurlands.

Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .