Vestmannaeyjar
Vestmannaeyjar
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Tíu af tuttugu sveitarfélögum sem gefið hafa út skuldabréf í Kauphöll Íslands skiluðu ársreikningi til Kauphallar of seint. Reglurnar kveða á um að allir skuldabréfaútgefendur birti ársreikning sinn við lok uppgjörsárs, það er um áramótin, eða eigi síðar en fjórum mánuðum eftir það. Lokafrestur til að skila er því 30. apríl. Öll sveitarfélögin hafa nú skilað ársreikningi fyrir síðasta ár. Níu skiluðu í maí og eitt í júní samkvæmt upplýsingum af miðlægum gagnagrunni Fjármálaeftirlitsins. Hin tíu skiluðu ársreikningum síðasta árs í apríl síðastliðnum. Til samanburðar skilaði einungis eitt félag, Reykjaneshöfn, ársreikningi of seint. Sá reikningur var birtur um miðjan maí en félagið hefur átt í viðræðum við kröfuhafa sína.

„Grunnreglan er sú að engin undanþága er veitt frá reglum Kauphallar og öll mál sem víkja frá þeim fara í verkferli hjá eftirlitssviði Kauphallarinnar,“ segir Kristín Jóhannsdóttir, samskiptastjóri Kauphallarinnar. Ekki liggur fyrir hvort eitthvert sveitarfélaganna verði áminnt eða beitt févíti vegna skilanna í maí og júní.

Misræmi milli laga og reglna

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir erfitt að átta sig á því hvað veldur því að sveitarfélög skila ekki á tilsettum tíma. Hann gæti þó trúað því að hluti ástæðunnar liggi í misræmi milli laga um hvenær ársreikningaskil eru samkvæmt sveitarstjórnarlögum annars vegar og samkvæmt reglum Kauphallar hins vegar. Síðasti dagur til að skila ársreikningi er 15. júní ár hvert samkvæmt sveitarstjórnarlögum. „Ég gæti trúað að sveitarstjórnir einblíni frekar á lögin og að skilafrestur hreinlega gleymist eða dettur upp fyrir,“ segir Halldór. Hann ítrekar þó mikilvægi þess að fylgt sé reglum Kauphallar, enda geta sektir legið við vanskilum.

Akureyrarbær, Fljótsdalshérað, Garðabær, Snæfellsbær, Grindavíkurbær, Reykjanesbær, Álftanes, Stykkishólmur, Rangárþing ytra og Vopnafjarðarhreppur skiluðu á réttum tíma. Fjarðabyggð, Kópavogsbær, Mosfellsbær, Árborg, Reykjavíkurborg, Norðurþing, Langanesbyggð, Sandgerðisbær, Ísafjarðarbær og Vestmannaeyjabær skiluðu of seint.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.