Sala lóða fyrir allt að 377 íbúðir í nýju íbúðarhverfi í Urriðaholti í Garðabæ hófst þann 25. maí síðastliðinn. Tilboð höfðu borist í allar lóðirnar, en aðeins um helmingur tilboða mætti útgefnu viðmiðunarverði og heldur því söluferlið áfram. Söluna annast fasteignasölurnar Eignamiðlun og Miðborg. Þetta kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins í dag.


Að sögn Þórs Steinarssonar markaðs- og sölustjóra Urriðaholts ehf. renndu eigendur blint í sjóinn þegar viðmiðunarverð var ákveðið. "Þetta er mjög viðamikið verkefni og það er núna í gangi almennt söluferli vegna þeirra lóða sem ekki seldust strax, með gagntilboðum o.s.frv. Það er ekki við því að búast að selja heilt hverfi á heilum degi."


Að sögn Þórs er það mjög góður árangur að selja helming lóðanna í Urriðaholti strax á viðmiðunarverði, en verðið var frá 18 milljónum og innheldur ekki gatnagerðargjöld. Til samanburðar er verð lóða í Úlfarsárdal um 17 milljónir að meðtöldum gatnagerðargjöldum, en Þór segir verðlagningu í Urriðaholti taka mið að miklum skipulagslegum gæðum hverfisins. "Með þessu útboði vorum við að spyrja hvað markaðurinn væri tilbúinn að gera og hvort fólk væri tilbúið að kaupa skipulagsgæði. Svörin voru mjög jákvæð, okkur til mikillar ánægju. Fólk er tilbúið að kaupa skipulagsgæði, fólk áttar sig á landgæðunum og markaðurinn er tilbúinn að borga þau verð sem við lögðum upp með" segir Þór.


Urriðaholt liggur ofan við Urriðavatn, í næsta nágrenni Heiðmerkur. Við skipulagningu Urriðaholts hefur áhersla verið lögð á sjálfbæra, mannvæna og umhverfisvæna byggð í tengslum við náttúruna, sem nýtur um leið greiðra samgönguleiða í næsta nágrenni. Þegar Urriðaholt verður fullbyggt er gert ráð fyrir að þar búi um 4.400 manns.