*

miðvikudagur, 27. janúar 2021
Innlent 6. nóvember 2020 16:12

Helmingur veltunnar með bréf Marel

Annan daginn í röð hækka hlutabréf allra fasteignafélaganna. Bréf Eimskips og Sýnar leiða lækkun dagsins.

Ritstjórn

Úrvalsvísitalan (OMXI10) hækkaði um 1,39% í dag og stendur í lok dags í rúmlega 2.250 stigum. Heildarvelta nam 3,4 milljörðum króna í um 224 viðskiptum. Hlutabréf tíu félaga hækkuðu, öll um meira en eitt prósentustig, bréf sex félaga stóðu í stað og bréf fjögurra félaga lækkuðu í virði.

Annan daginn í röð voru fasteignafélögin áberandi í hækkunum dagsins. Mest hækkuðu hlutabréf Regins um 4,6% í 190 milljóna króna veltu. Næst mest hækkuðu bréf Reita um 3,21% í þriðju mestu veltu dagsins, fyrir 259 milljónir. Bréf Origo hækkuðu um 3,19% en bréf Eikar um 2,2%.

Mest velta var með bréf Marel eða fyrir rúmlega 1,7 milljarða króna í alls 43 viðskiptum. Hlutabréf Marel hækkuðu um 2,1% og standa í 715 krónum hvert. Næst mest velta var með bréf Kviku banka fyrir 268 milljónir en bréf bankans hækkuðu um 1,4%.

Mest lækkuðu hlutabréf Eimskips um 2,2% í 18 milljóna króna viðskiptum. Næst mest lækkuðu bréf Sýnar um 1,5% í 42 milljóna króna viðskiptum. Bréf Eimskips standa nú í 182 krónum og bréf Sýnar í 33,5 krónum.

Stikkorð: Eimskip Sýn Fasteignafélögin