*

þriðjudagur, 25. júní 2019
Innlent 29. apríl 2018 19:02

Helmingur viðbótarkostnaðar í gjöld

„Mismunun,“ segir Eyþór Arnalds, en Hjálpræðisherinn þarf eitt trúfélaga að greiða 50 milljónir í gjöld til borgarinnar.

Ritstjórn
Forsvarsmenn Hjálpræðishersins á Íslandi sögðu áheyrendum frá nýja Herkastalanum, þar með talið Eyþóri Arnalds oddvita Sjálfstæðismanna í borginni.
Höskuldur Marselíusarson

Ef Reykjavíkurborg myndi fella niður gatnagerðar- og önnur gjöld til Hjálpræðishersins eins og annarra trúfélaga myndi það duga fyrir helmingi mismunar á söluverði gamla Herkastalans og byggingarkostnaðar þess nýja.

Viðskiptablaðið sagði frá því í gær að bygging nýrrar 735 milljóna króna Hjálparmiðstöðvar Hjálpræðishersins hefst á næstu vikum, en áður kom fram í fréttum að söluandvirði gamla kastalans við Aðalstræti nam 635 milljónum.

Forsvarsmenn trúfélagsins tóku í gær við hátíðlega athöfn, skóflustungu að nýjum Herkastala þar sem auk trúarsamkoma félagsins verður boðið upp á alls kyns starfsemi til að hjálpa nauðstöddum líkt og hefur verið rauður þráður í starfsemi félagsins frá stofnun.

Enginn frá meirihlutanum

Athygli vakti að enginn fulltrúi var frá meirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar í borgarstjórn við athöfnina. Tveimur dögum fyrr hafði borgarstjórn vísað frá tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að félagið fengi felld niður gjöld til borgarinnar vegna lóðarinnar og framkvæmdanna, en samtals gæti sú upphæð numið um 50 milljónum króna.

Félag múslima sem fékk næstu lóð við hliðina úthlutaða, auk trúfélaga Réttrúnarmanna og Ásatrúarmanna, sem fengu á sama tíma lóðum úthlutað við Mýrargötu og í Öskjuhlíð, hafa hins vegar fengið gjöld til borgarinnar felld niður.

Óskynsamlegt að rukka fyrir að láta gott af sér leiða

Eyþór Arnalds borgarstjórnarefni Sjálfstæðismanna og oddviti flokksins fyrir komandi kosningar, sem lét sig hins vegar ekki vanta við athöfnina, segir að honum sýnist borgarstjórnin vera að mismuna gagnvart trúfélögum.

„Mér sýnist þetta vera mismunum, en mér finnst þetta líka vera óskynsamlegt, því Hjálpræðisherinn er búinn að gefa svo margfalt til Reykvíkinga. Reykjavíkurborg á ekki að rukka Hjálpræðisherinn um 50 milljónir fyrir það eitt að vilja láta gott af sér leiða, borgin ætti frekar að styðja við bakið á þeim,“ segir Eyþór sem aðspurður fannst merkilegt að enginn frá meirihlutanum léti sjá sig við athöfnina.

„Það hlýtur að hafa komið eitthvað upp á. Það hafa varið ansi mörg forföllin í dag, því að ef einungis tveir af 15 borgarfulltrúum mættu hingað, þá hlýtur eitthvað mikið hafa komið upp á. Einhver skyndifundur í ráðhúsinu eða eitthvað, því þessi merka hjálparstofnun sem Hjálpræðisherinn er, á náttúrulega skilið þakklæti frá borginni.

Samt sem áður er þetta er búinn að vera fallegur dagur, sólin skín og framtíð Hjálpræðishersins er björt, líkt og fortíðin hefur verið. Fáir hafa gert jafnmikið gott, fyrir jafnmarga og Hjálpræðisherinn hefur gert á síðustu meira en 100 árum. Reykjavíkurborg á að hlúa að þeim sem gera vel.“

Andsnúin úthlutun til mosku á lóðinni við hliðina

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir var annar þeirra borgarfulltrúa sem fögnuðu með meðlimum og öðrum velunnurum trúfélagsins við athöfnina, en hún segir byrjun framkvæmda vera mikið gleðiefni. „Þetta er stórt skref fyrir félagið í að geta aukið þjónustuna og fengið meiri athygli fyrir starfsemi sína," segir Sveinbjörg Birna, en hún er oddviti framboðsins Borgin okkar - Reykjavík.

„Ég tel aftur á móti, eins og ég og Kjartan Magnússon borgarfulltrúi, sem hefur barist mjög grimmt fyrir því í borgarráði, að þessi lóð hefði átt að vera veitt endurgjaldslaust í ljósi jafnræðisreglunnar. Hér við hliðina er svo moskulóðin, sem ég hef nú lýst mig andsnúna að hafi verið gefin, en það var borgað fyrir þessa lóð.“

Engar haldbærar skýringar frá meirihlutanum í borgarstjórn

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og flutningsmaður tillögu um niðurfellingu allra gjalda til félagsins fyrr í vikunni sagðist í samtali við Viðskiptablaðið á athöfninni, ekki átta sig á hverjar forsendur borgarstjórnarmeirihlutans fyrir því að hafna stuðningi við þetta trúfélag séu, á sama tíma og önnur njóta stuðnings með niðurfellingu gjalda.

„Við höfum ekki fengið neinar haldbærar skýringar á því. Það er talað um það að trúarsöfnuðir eigi helst ekki að fá ókeypis lóðir, en svo sjáum við að trúarsöfnuðurinn sem hyggst byggja hér við hliðina, sem ekki hefur langa sögu í borginni og eins og sést er ekki byrjaður á framkvæmdum, fékk lóðina ókeypis fyrir nokkrum árum. Þar varð allt að vera ókeypis, en ekki þessi lóð,“ segir Kjartan.

„En það er frábært að sjá þetta hús verða að veruleika samt sem áður og að framkvæmdir séu að hefjast. Hjálpræðisherinn byrjaði á hjálparstarfi í borginni löngu áður en Reykjavíkurborg sjálf var þess megnuð að gera nokkuð. Þegar þeir byrjuðu með fyrsta velferðarkerfið í Reykjavík var fátækt fólk í sárri neyð að flytjast til borgarinnar í hrönnum og þá var, og er held ég enn, Hjálpræðisherinn öflugustu hjálparsamtökin. Þessi dagur er búinn að vera frábær að öðru leiti, og ég óska Hjálpræðishernum og öllu kristnu fólki í samfélaginu til hamingju með daginn.“

Þess má geta að þegar gamli Herkastalinn var byggður fyrir rúmum 100 árum síðan, og lóðin keypt enn fyrr, greiddi trúfélagið einnig öll gjöld til borgarinnar fyrir byggingu hans eins og fram kom í viðtali við Kolbjörn Örsnes deildarstjóra Hjálpræðishersins á Íslandi og í Færeyjum.

Fleiri fréttir um Hjálpræðisherinn og mismunun borgarinnar við lóðaúthlutanir til trúfélaga:

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is