Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 0,20% í 3,4 milljarða viðskiptum, og fór hún í 1.893,67 stig. Mest hækkun var á bréfum Origo, eða um 2,80% í 19 milljóna viðskiptum, upp í 22,0 krónur.

Næst mest hækkaði gengi bréfa Marel, eða um 1,56%, upp í 521,0 krónur, í töluvert meiri viðskiptum eða fyrir 1,8 milljarða króna. Það er 53% allra viðskipta í kauphöllinni í dag.

Auk þessara félaga hækkaði einungis gengi Eimskipafélagsins, Sýnar og Arion banka í kauphöllinni í dag, öll önnur félög lækkuðu í virði. Það dugði þó ekki til að færa úrvalsvísitöluna niður.

Mest lækkun var hins vegar á gengi bréfa HB Granda, eða 2,46% í 56 milljóna króna viðskiptum, og fór gengið niður í 29,70 krónur.

Næst mest var lækkunin síðan á gengi bréfa Eikar, eða um 2,24% í 75 milljóna króna viðskiptum, en gengi fasteignafélagsins lækkaði niður í 8,73 krónur.

Annað fasteignafélag, Reitir lækkaði svo þriðja mest, eða um 1,86% í 278 milljóna viðskiptum, og fór bréf félagsins niður í 73,70 krónur.