Tæp 50% Íslendinga telja að Hanna Birna Kristjánsdóttir eigi að segja af sér embætti sem innanríkisráðherra, að því er fram kemur í niðurstöðum nýrrar könnunar Fréttablaðsins.

Rúmlega 30% landsmanna eru mótfallin því að Hanna Birna segi af sér, 14% sögðust óákveðin og 4% vildu ekki svara. Ef einungis er tekið mið af þeim 80% svarenda sem tóku afstöðu til spurningarinnar kemur í ljós að 60% vilja að ráðherrann víki.

Fjórðungur kjósenda Sjálfstæðisflokksins vill að ráðherrann segi af sér.

Á mánudag játaði Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Hönnu Birnu, að hafa lekið gögnum um hælisleitanda til fjölmiðla og hlaut fyrir brotið átta mánaða skilorðsbundinn dóm.