Lögmannafélagið gerði könnun meðal fulltrúa á lögmannsstofum í byrjun árs þar sem fram kom að níu af hverjum tíu fulltrúum upplifa streitu í starfi og yfir helmingur sér ekki fyrir sér að starfa sem lögmaður í framtíðinni. Þetta hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir lögmannastéttina?

„Þetta er það alveg klárlega. Maður myndi svo gjarnan vilja að allir sem hafa áhuga og finna sig í þessu starfi fyndu sína fjöl. Ég hef hugsað þetta mikið gegnum tíðina því ég þekki af eigin raun hvernig það er að púsla saman fjölskyldulífi og vinnu, en hef því miður enga eina lausn. Á stofu eins og okkar liggur stundum mjög mikið á og þá þarf að taka langa daga. Við höfum það umfram flestar aðrar stofur hér á landi að vera ansi mörg þannig að það er svigrúm í því hvernig er hægt að raða þessu. Það er auðvitað misjafnt hvernig stendur á hjá hverjum og einum. Ég segi fyrir sjálfa mig að maður lærir að takast á við álagið þegar upp kemur staða þar sem mikið liggur við – bara eins og í öðrum störfum,“ segir Helga Melkorka Óttarsdóttir, framkvæmdastjóri LOGOS, sem var viðmælandi Viðskiptablaðsins í síðustu viku. Hún segir að sér verði hugsað til þess að stundum hafi lögmenn einhvern bakgrunn í íþróttum eða tónlist.

Er lögmennskan kannski að einhverju leyti keppnisíþrótt?

„Á vissan hátt, já. Eigendahópurinn tók til dæmis veturinn í þjálfun þar sem meðal annars var gerð greining á styrkleikum og persónuleika hvers og eins. Það var áhugavert að sjá hvað það voru margir með einhvers konar keppniseiginleika. Þú vilt auðvitað ná árangri, gæta hagsmuna umbjóðenda og ná í gegn þeim markmiðum sem umbjóðandi þinn stefnir að.“

Hrunverkefnin að fjara út

Velta LOGOS dróst eins og áður segir saman um 16% milli áranna 2016 og 2017. Á sama tíma dróst velta lögmannsstofunnar BBA Legal saman um 40% og starfsmönnum á lögmannsstofunni LEX fækkaði um 13%. Helga Melkorka segir ýmsar skýringar á þessum samdrætti hjá LOGOS. „Einhvern tíma var sagt að það væri sama hvort það væri hreyfing upp eða niður í viðskiptalífinu þá yrðu til verkefni fyrir lögmenn. Við erum auðvitað í mjög fámennu landi. Hagkerfið er lítið og stærstu stofurnar hér hlutfallslega stórar,“ segir Helga Melkorka og bendir á að hlutfall lögfræðinga og lögmanna á Íslandi sé hátt miðað við höfðatölu.

„Helsta skýringin á þessum sveiflum er kannski sú hvað Ísland er lítill markaður og hvað allar sveiflur eru ýktar. Eftir hrun ruku velta og afkoma upp og starfsmannafjöldi sömuleiðis. Ég gerði mér ekki grein fyrir að þessi verkefni myndu vara í svona mörg ár,“ segir Helga Melkorka, en í ár verða tíu ár liðin frá hruni.

„Ég held að þetta haldist bara í hendur. Hrunverkefnin voru mjög mannfrek og flókin og miklir hagsmunir undir. Allt í einu urðu dómsmál mun stærra hlutfall verkefna hjá okkur, þung og mannfrek mál sem tóku mörg ár í rekstri og eru mörg ekki búin. Ég held að þetta sé stór þáttur í þessu. Annað sem hefur líka áhrif er gengi krónunnar. Það eru miklar sveiflur í tekjum af vinnu fyrir erlenda aðila. Við hjá LOGOS höfum hins vegar bæði mikla dýpt og breidd. Við erum með stóran hóp á íslenskan mælikvarða og sérþekkingu á mörgum sviðum. Þótt mikið af mannskap og krafti hafi farið í hrunmál þá var fullt af fyrirtækjum sem voru í fullri starfsemi og við héldum áfram að sinna. Svo sér maður núna að í viðskiptalífinu eru kaup og sölur fyrirtækja orðin algengari en veltan fór aðeins niður undanfarin ár en árið í ár fer vel af stað. Við erum kannski að ná einhvers konar jafnvægi,“ segir Helga Melkorka.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .