Stuðningshópur Katrínar Jakobsdóttir, formanns Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, lét fyrirtækið Zenter gera skoðanakönnun um viðhorf landsmanna til þess hver ætti að verða næsti forsætisráðherra Íslands.

Könnunin var gerð á dögunum 10.-21. nóvember og var úrtakið 2048 manns. Spurt var: „Hvern eftirfarandi myndir þú vilja sjá sem næsta forsætisráðherra Íslands?“ og gátu svarendur valið úr hópi forystumanna íslenskra stjórnmálaflokka.

Af þeim sem tóku afstöðu vildu 49,5% svarenda sjá Katrínu Jakobsdóttur sem næsta forsætisráðherra en næst á eftir vildu 20,5% sjá Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins og svo 10,2% Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins. Aðrir forystumenn fengju minna en 10%.

Katrín nýtur mest fylgis, eða 59,7%, meðal yngsta aldurshópsins, fólks á aldrinum 18 til 24 ára, en minnst meðal þess elsta, eða 65 ára og eldri. Hún nýtur samt sem áður mest fylgis allra flokksformannanna í öllum aldurshópum. Fylgi hennar minnkar svo eftir aldrei, en athyglisvert er að hún nýtur svo umtalsvert meira fylgis meðal 55 til 64 ára, heldur en aldurshópanna sínum hvorum megin, eða 52,1%.

Garðbæingar og Seltirningar á öndverðum meiði

Jafnframt nýtur hún minna fylgis á landsbyggðinni, eða 43,2% heldur en á höfuðborgarsvæðisins þar sem það fer upp í 53,0%. Svipaður munur er á milli kynjanna, 55,6% kvenna styðja hana en 43,6% karla.

Þegar stuðningur við forsætisráðherraefni er skoðað nánar eftir búsetu sést að Katrín er með mest fylgi í embættið meðal íbúa allra landshluta og stærri sveitarfélaga, nema meðal íbúa Garðabæjar og Reykjaness.

Hún hefur hins vegar mest fylgi meðal íbúa Reykjavíkur og Seltjarnarness, eða 56,7% og 56,5%, en minnst á Seltjarnarnes og Garðabæ, 31,1% og 32,5%. 48,0% Garðbæinga og 37,8% Reyknesinga vilja fá Bjarna Benediktsson sem forsætisráðherra.

Rúmlega fimmtungur sveinsprófshafa vilja Katrínu

Ef hóparnir eru skoðaðir eftir vinnu og námi sést að hlutfall þeirra sem vilja hana sem forsætisráðherra er hæst meðal þeirra sem eru í námi eða 65,1%, en minnst meðal atvinnurekenda og sjálfstætt starfandi, eða 30,6% og eftirlaunafólks eða 38,4%.

Ef stuðningurinn er skoðaður eftir menntun eru þeir sem lokið hafa háskólapróf jafnframt líklegastir til að vilja hana sem forsætisráðherra, 59,5% meðal þeirra sem klárað hafa framhaldsnám, og 57,2% meðal þeirra sem klárað hafa grunnnám.

Þeir sem hafa klárað sveinspróf eru hins vegar áberandi áhugaminnstir, eða 22,8%. en þeir sem hafa klárað meistarapróf eru næst áhugaminnstir, eða 37,9%. Sveinsprófshafar eru jafnframt eini hópurinn þar sem Katrín hefur ekki mest fylgi, en 29,5% þeirra vilja Bjarna Benediktsson sem forsætisráðherra.