Helsti keppinautur Skiptis, eignarhaldsfélags Exista, Kaupþings og nokkurra lífeyrissjóða, um tæplega helmingshlut í slóveníska símafyrirtækinu Telekom Slovenije, bresk-þýska samstæðan Bain Capital & Axos Capital í samvinnu við BT Globalne frá Slóveníu, hefur tilkynnt að hann hyggist draga til baka tilboð sitt í símafyrirtækið.

Í yfirlýsingu frá samstæðunni segir að hún hafi tilkynnt einkavæðingarnefnd slóvenska ríkisins að hún muni ekki endurnýja tilboð sitt eftir þegar frestur þar um rennur út 29. febrúar nk. Hafði nefndin farið fram á að samstæðan og Skipti sendu inn endurbætt tilboð fyrir þann tíma.

„Helsta ástæða þessarar ákvörðunar er óánægja yfir margvíslegum töfum sem orðið hafa á vali þess kaupanda sem mönnum líst best á,” segir í tilkynningunni.

Í janúar var haft eftir meðlimi slóvenska þjóðarflokksins, sem situr í ríkisstjórn, að tilboðin væru í kringum 400 evrur á hlut, eða sem nemur um 270 miljörðum króna, og að flokkurinn teldi það of lágt. Gengi bréfa í Telekom Slovenije var skráð á 323 evrur á hlut í gær.