Eins og fram hefur komið í dag er Hanna Birna Kristjánsdóttir nýr borgarstjóri í Reykjavík og tekur við því embætti af Ólafi F. Magnússyni.

Hanna Birna var áður forseti borgarstjórnar.

Óskar Bergsson verður formaður borgarráðs og tekur við því embætti af Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni. Þá verður Óskar áfram formaður framkvæmda- og eignasjóðs.

Forseti borgarstjórnar verður eins og fyrr segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson , fyrrverandi borgarstjóri en Vilhjálmur var áður formaður borgarráðs. Vilhjálmur tekur við embættinu af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Þá situr Vilhjálmur einnig í borgarráði.

Kjartan Magnússon verður formaður menntaráðs og tekur við því embætti af Júlíusi Vífli Ingvarssyni. Þá verður Kjartan formaður Íþrótta- og tómstundarráðs en hann var formaður ráðsins frá 1. apríl til 1. ágúst á þessu ári í fjarveru Bolla Thoroddsen.

Kjartan var einnig formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur en verður nú varaformaður stjórnarinnar. Þá situr Kjartan áfram í borgarráði.

Júlíus Vífill Ingvarsson verður áfram formaður stjórnar Faxaflóahafna auk þess sem hann verður áfram formaður skipulagsráðs. Júlíus kemur einnig inn í borgarráð.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir verður áfram formaður leikskólaráðs auk þess sem hún er nýr formaður umhverfis- og samgöngusviðs borgarinnar.

Hún tekur við því embætti af Gísla Marteini Baldurssyni sem sagt hefur sig úr nefndum borgarinnar vegna væntanlegrar námsdvalar sinnar erlendis. Gísli Marteinn verður þó annar varaforseti borgarstjórnar en Dagur B. Eggertsson var kosin varaforseti borgarstjórnar í morgun.

Jórunn Frímannsdóttir verður áfram formaður velferðarráðs auk þess að verða formaður stjórnkerfisnefndar borgarinnar. Gísli Marteinn Baldursson var áður formaður stjórnkerfisnefndar.

Marta Guðjónsdóttir , varaborgarfulltrúi verður áfram formaður mannréttindaráðs.

Þá verður Áslaug Friðriksdóttir , einnig varaborgarfulltrúi, formaður menningar- og ferðamálaráðs og tekur við því embætti af Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur.

Og eins og áður hefur komi fram verður Guðlaugur G. Sverrisson formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur og tekur við því embætti af Kjartani Magnússyni. Kjartan verður varaformaður stjórnarinnar eins og áður hefur komið fram.