Ótrúlega margt sem var í fréttum á árinu 2011 minnti á helstu fréttir ársins 2010. Icesave-kosningar, eldgos, kynferðisleg hneyksli innan kirkjunnar, handtökur vegna bankahrunsins, svo fátt eitt sé talið, voru í fréttum árið 2010 sem og í ár.

Það þótti á meðal frétta ársins í Viðskiptablaðinu þegar Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri, var dæmdur fyrir innherjasvik.

Í apríl var ráðuneytisstjórinn fyrrverandi, Baldur Guðlaugsson, dæmdur í tveggja ára fangelsi í héraðsdómi fyrir innherjasvik í aðdraganda bankahrunsins. Er hann ennþá eini maðurinn sem dæmdur hefur verið fyrir athafnir tengdar hruninu, en þeir Ragnar Z. Guðjónsson, Jón Þorsteinsson og Styrmir Þór Bragason voru sýknaðir í Exetermálinu svokallaða. Fleiri ákærur hafa ekki enn verið gefnar út af embætti sérstaks saksóknara.