Ótrúlega margt sem var í fréttum á árinu 2011 minnti á helstu fréttir ársins 2010. Icesave-kosningar, eldgos, kynferðisleg hneyksli innan kirkjunnar, handtökur vegna bankahrunsins, svo fátt eitt sé talið, voru í fréttum árið 2010 sem og í ár.

Icesave-samningur felldur í annað sinn þótti frétt ársins í Viðskiptablaðinu.

Aftur var nýr samningur við Breta og Hollendinga um ábyrgð íslenska ríkisins á innlánum á Icesave-reikningum Landsbankans lagður fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Eins og í fyrra skiptið hafnaði meirihluti þjóðarinnar því að samningurinn yrði að lögum. Margir höfðu spáð því að ef samningnum yrði hafnað myndu efnahagslegar hörmungar dynja á þjóðinni.

Matsfyrirtækið Moody‘s gaf til dæmis sterklega í skyn að lánshæfi íslenska ríkisins væri í hættu. Fátt rættist hins vegar af þessum dómsdagsspám og nú er útlit fyrir að allar forgangskröfur í þrotabú Landsbankans fáist greiddar úr þrotabúinu án þess að íslenska ríkið þurfi að koma þar að.