Stjórn Marel hf. ákvað á fundi sínum í dag að veita hópi starfsmanna sinna kaupréttarsamninga í samræmi við starfskjarastefnu félagsins sem samþykkt var á aðalfundi Marel þann 3. mars 2010.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar en heildarfjöldi hluta sem veittir eru kaupréttir að, samkvæmt samningum þessum, eru samtals 18,2 milljónir króna.

Hluti af samningum eru við meðlimi framkvæmdastjórnar félagsins, þá Theo Hoen, forstjóra, Erik Kaman, fjármálastjóra og Sigstein Grétarsson, forstjóra Marel á Íslandi, og veitir þeim kauprétt að hlutum.

Nýr kaupréttur Theo Hoen felur í sér kaup á 350 þúsund hlutum. Þá á Hoen eldi ónýttan kauprétt á 2 2 milljónum hluta en bein eign hans er að nafnvirði 1,5 hlutar í dag.

Þá eru nýir kaupréttir fyrir Erik Kaman og Sigstein Grétarsson jafnframt 350 þúsund hlutar fyrir hvorn. Kaman á eldri ónýttan kauprétt á 1,5 milljón hluta en Sigsteinn á 1 milljón hluta af ónýttum kauprétti. Nú þegar á Kaman 1,68 milljón hluti í félaginu en Sigursteinn tæpa 26 þúsund hluti.

Samningarnir veita rétt til kaupa á hlutum í Marel hf. á genginu 0,525 evrur á hlut sem ákvarðað er af lokagengi hlutabréfa Marel í Kauphölli við lok markaða í dag. Það jafngildir 86,3 krónum á hvern hlut hlut umreiknað með miðgengi Seðlabankans.

Gildistími samninganna er 5 ár, þeir munu taka gildi frá deginum í dag og falla úr gildi þann 9. maí 2015. Kaupréttir samkvæmt samningnum munu verða veittir í þrennu lagi, þannig að 50% af heildarkauprétti verða nýtanleg eftir 1. maí 2012, 25% verða nýtanleg eftir 1. maí 2013 og þau 25% sem eftir eru verða nýtanlega eftir 1. maí 2014. Kaupréttargengið mun hækka um 4% í fyrsta sinn 1. maí 2012 og síðan árlega eftir það.

Þá kemur fram í tilkynningunni að nýti starfsmaður ekki að fullu kauprétt sinn samkvæmt framangreindu innan skilgreindra nýtingatímabila mun kauprétturinn, að því marki sem hann er ónýttur, sjálfkrafa færast yfir á næsta slíkt tímabil. Hafi starfsmaður ekki nýtt kauprétt sinn áður en samningurinn fellur úr gildi, falla veittir en ónýttir kaupréttir niður.

Þá kemur einnig fram að engir söluréttir eru til staðar eða fjármögnun tengd kaupréttarsamningunum. Heildarfjöldi hluta sem Marel hf. hefur nú veitt kauprétt að eru 43.815.000.