Björn Leifsson, oft kallaður Bjössi í World Class, er flestum Íslendingum kunnugur fyrir það að reka stærstu líkamsræktarkeðju landsins. Hann hefur líka verið í sviðsljósi fjölmiðla, stundum jafnvel meira en hann hefur kært sig um.

Hefur þessi umfjöllun, og þessi mikla athygli, haft einhver áhrif á þig?

„Auðvitað hafði þetta áhrif þegar verst lét. Maður vissi hreinlega ekki hvort maður ætti eitthvað á tímabili. Það var herjað á mann úr öllum áttum og ég sá á tímabili fram á að ég myndi missa allt sem ég væri búinn að byggja upp á þessum 25 árum og þyrfti að flytja í fellihýsið,“ segir Björn og hlær. „Það var mjög óþægileg tilfinning, eins og væntanlega allir sem lenda í þeirri stöðu finna. Að vera á forsíðu fjölmiðla dag eftir dag með mismunandi athugasemdir og yfirleitt alltaf frekar neikvæðar hafði auðvitað áhrif. En ég beit síðan bara á jaxlinn og reisti upp hnakkann.“

Upp úr þessari umfjöllun hefur þú líka orðið að umræðuefni manna á milli, ekki síst hjá þeim sem eru virkir í athugasemdum. Yfirleitt hefur það verið frekar neikvætt. Hefur það náð til þín?

„Nei, ég reyndar les það yfirleitt og er alltaf jafn hissa hvað það er margt fólk sem talar illa um annað fólk og málefni sem það þekkir ekki og veit ekkert um. En þegar verst lét þá beit ég bara á jaxlinn og ákvað bara að sýna þessu liði að ég væri ekkert af baki dottinn og opnaði tvær nýjar stöðvar í miðju áfallinu, þegar ég opnaði í Kringlunni og í Ögurhvarfi. Það var hreinlega að miklu leyti til að sýna að ég væri ekkert búinn.“

Björn er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .