Háskóli Íslands heldur sæti sínu á lista Times Higher Education yfir bestu háskóla í heimi, en nýjasti listinn var birtur í gærkvöldi. Tækniháskólinn í Kaliforníu (Caltech) er í efsta sæti listans fjórða árið í röð. Harvard er í öðru sæti og Oxford-háskóli í því þriðja. Háskóli Íslands er í 251.-275. sæti á listanum, líkt og í fyrra.

„Það er bæði gríðarleg ánægja og gríðarlegur léttir sem fylgir þessu, því ég viðurkenni að ég var mjög kvíðin því að við myndum lækka eða jafnvel detta út af listanum, samkeppnin er svo gríðarlega hörð,“ segir Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.

Hún segir flesta háskóla keppa um sæti á þessum lista og víða hafi skólar fengið aukin fjárframlög til að styrkja stöðu sína. „Árangurinn sem við höfum náð er að þakka einbeittum vilja starfsfólks, stúdenta og samstarfsaðila,“ segir hún og segir árangurinn dæmi um það hversu miklu sé hægt að áorka með samstöðu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .