Hvorki fleiri né færri en 228.961 eintök seldust af Inferno (ísl. Helvíti), nýjustu spennusögu bandaríska rithöfundarins Dan Brown, í Bretlandi viku eftir að hún kom út. Bókin vermir toppsætið á metsölulistum þar í landi. Þetta eru tæplega tífalt fleiri eintök en seldust af bókinni sem er í öðru sæti yfir mest seldu bækur landsins.

Breska dagblaðið Guardian segir Inferno rithöfundarins ekki gera jafn góða hluti og síðasta bók Dan Brown. Það var bókin The Lost Symbol, sem var önnur bók hans á eftir metsölubókinni Da Vinci Code, sem kom út árið 2003. Meira en hálf milljón eintaka af bókinni rann úr hillum bókaverslana fyrstu vikuna eftir að hún kom út.

Þessi nýjasta bók Dan Brown hefur fengið síður en svo góða dóma í Bretlandi. Brown segir sjálfur í samtali við breska ríkisútvarpið (BBC) að engu sé líkara en það sé orðin íþrótt þar í landi að sparka í hann.