Nýsköpunarhemillinn Startup Westfjords verður haldinn í fjórða skiptið í Blábankanum á Þingeyri dagana 5. til 12. september næstkomandi. „Við köllum þetta viðskiptahemil en ekki hraðal vegna þess að áherslurnar okkar eru aðrar en í hröðlum. Í stað þess að leggja áherslu á viðskiptalega hlutann á nýsköpun og fyrirtækjum erum við að leggja áherslu á umhverfis-, samfélags-, og mannlega partinn í ferlinu við að koma fyrirtæki eða hugmyndum af stað," segir Íris Indriðadóttir, verkefnastjóri hjá Blábankanum.

Hún segir Startup Westfjords vera vinnustofu fyrir einstaklinga og/eða teymi sem vinna að nýsköpun. „Meginmarkmiðið er að teygja og beygja hugmyndir í átt að sjálfbærni, framtíðinni og uppbyggjandi samfélagi. Hemillinn er ætlaður frumkvöðlum sem vilja þróa verkefni sín í streitufríu, afslöppuðu og hvetjandi umhverfi. Það má segja að slagorð okkar sé minna stress, meiri sköpun," segir Íris kímin.

„Þátttakendur eru tengdir við reynda leiðbeinendur og hemillinn veitir rými til að vinna, hugsa og einbeita sér langt frá hröðum takti hversdagsins. Innifalið í vinnustofunni er gisting, matur og vinnuaðstaða," bætir hún við.

Sjálfseignarstofnunin Blábankinn er nýsköpunar- og samfélagsmiðstöð á Þingeyri sem var stofnuð árið 2017 af Vestinvest, Ísafjarðarbæ og Simbahöllinni. Íris lýsir Blábankanum sem vistkerfi sem styðji við fólk sem vill skapa sjálfbær tækifæri fyrir þorpið og heiminn allan. Þar sé m.a. að finna aðstöðu fyrir stóra sem smáa viðburði, sem og vinnu- og fundarrými fyrir frumkvöðla. Þá haldi bankinn utan um margs konar verkefni, innlend sem og alþjóðleg.

Hraði geti hamlað skapandi hugsun

Ásamt því að þróa hugmyndir sínar áfram leggi Startup Westfjords áherslu á að þátttakendur gefi sér tíma í að tengjast náttúrunni og sjálfum sér. Á Þingeyri séu endalaus tækifæri fyrir útivist, sjóböð og að vinna með höndunum. „Við leitumst því eftir því að fá inn þátttakendur sem hafa mikinn áhuga á umhverfis- eða samfélagsmálum. Auk þess væri ákjósanlegt fá inn þátttakendur sem hafa áður farið í gegnum viðskiptahliðina með þátttöku í nýsköpunarhraðli og hafa áhuga á að skoða fleiri hliðar í starfsumhverfi fyrirtækja," segir Íris.

„Margir hlutir í samfélagi okkar ýta undir hraða þróun og mikil afköst á skömmum tíma. Það hugarfar hefur ekki alltaf jákvæð áhrif á skapandi hugsun. Sköpun þarfnast einbeitingar, frelsis og öryggis. Nýsköpun er eitt af mikilvægustu tólum mannkynsins til þess að þróa heilbrigt samfélag með efnahagslegum, samfélagslegum og umhverfislegum stöðugleika. Þess vegna höldum við Nýsköpunarhemil, þar sem við hvetjum hugmyndasmiði til þess að staldra við og taka þátt í samtali með sérfræðingum, opna nýjar dyr og þróa hugmyndirnar enn lengra," bætir hún við.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .