Íbúar á höfuðborgarsvæðinu hentu áldósum, plast- og glerflöskum fyrir 192 milljónir króna á síðasta ári. Þetta er samt minna en árið 2012 þegar verðmæti umbúða sem hent var nam 225 milljónum króna.

Fréttablaðið greinir frá málinu og vitnar til könnunar Sorpu í nóvember.

Fram kemur í umfjölluninni að íbúar höfuðborgarsvæðisins hentu mun minna af pappír og pappa en fyrri ár. Hlutfallið pappírs og pappa í rusli var tæp 9% í fyrra en um 24% árið 2011.

Björn Hafsteinn Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu, segir í samtali við Fréttablaðið, ekki spurningu að blátunnuvæðingin hafi skilað góðum árangri. Fólk virðist hugsa sig betur um það en áður hvað það hendi í ruslið.