Ásgeir Jónsson var í ársbyrjun kjörinn forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands.

Ásgeir hefur þegar ráðist í breytingar á hagfræðideild Háskóla Íslands og aukið fjölbreytni námsins til að opna á frekari tækifæri í atvinnulífinu að námi loknu. Hann telur hagfræðina standa vel að vígi sem fræðigrein og að hans sögn opnar hún margar dyr.

Hvernig stendur hagfræðideildin að vígi?

„Það er eindregið mín skoðun að frá því að hagfræðinámið var stofnað árið 1988 hafi það skilað miklum árangri. Þeim hagfræðingum sem við höfum útskrifað hefur gengið mjög vel hvort sem er á vinnumarkaði eða framhaldsnámi erlendis. Þeir eru nú dreifðir um allt atvinnulífið og hafa oftar en ekki unnið sig upp í ábyrgðar- og stjórnunarstöður. Þá hafa þeir einnig náð framgangi sem kennarar við virta erlenda háskóla.

Deildin hefur lagt gríðarmikla áherslu á viðhalda gæðum í náminu – jafnvel þó það þýði að útskrifaðir nemar verði færri fyrir vikið. Það hefur til að mynda verið gert með sérstökum inntökuprófum sem og með miklum tæknilegum námskröfum.

Af þeim sökum hefur útskrifuðum hagfræðingum ekki fjölgað eins gríðarlega á síðustu árum líkt og í öðrum tengdum greinum á borð við viðskiptafræði og lögfræði. Þessi markvissa gæðastefna hefur orðið til þess að vegur hagfræðinnar hefur jafnt og þétt farið vaxandi og hefur skapað mikla möguleika fyrir nemendur eftir útskrift hjá okkar nemendum.

Þegar ég sjálfur hóf hagfræðinám árið 1991 spurði fólk mig í forundran hvað ég ætlaði eiginlega að gera með þessa gráðu þar sem fólk gat ekki mátað hana við nein störf á vinnumarkaði – nema þá kannski á Þjóðhagsstofnun. Slíkar spurningar heyrast ekki lengur – hagfræðingar eru ekki lengur sjaldgæfir fuglar líkt og var þegar hagfræðinámið var stofnað fyrir 20-30 árum heldur finnast þeir mjög víða í atvinnulífinu.“

Hverjar eru helstu breytingarnar sem þú hefur ráðist í frá því að þú tókst við starfi deildarforseta?

„Ég hef verið að vinna að því að brautarskipta hagfræðináminu frá því að ég tók við um síðustu áramót og í því skyni hafa verið stofnaðar tvær nýjar námsbrautir: viðskiptahagfræði og fjármálahagfræði. Kannski erum við að leita aftur til upphafsins hvað þetta varðar.

Hagfræðin var upphaflega stofnuð sem sérstök skor innan viðskiptadeildar þar sem nám í viðskiptafræði og hagfræði var mjög samþætt. Þegar ég var til að mynda í náminu 1991-1994 var fyrsta árið mjög svipað: Viðskiptafræðingar lærðu töluvert mikla hagfræði og tóku sömu tölfræðikúrsa. Við í hagfræði tökum sömu kúrsa í fjármálum og endurskoðun.

Hins vegar skildu leiðir árið 2008 þegar hagfræðin varð sjálfstæðari deild. Nú taka viðskiptafræðinemar almennt aðeins einn kúrs í hagfræðideild og áherslan hefur færst yfir á aðrar viðskiptagreinar.

Mér sjálfum finnst hins vegar að gamla viðskiptafræðinámið hafi verið fremur kröftug blanda af hagfræði og viðskiptafræði sem mig langar gjarnan til þess að endurvekja, enda er eiginlega ómögulegt að reka fyrirtæki á Íslandi án þess að hafa ávallt annað augað á þróun þjóðarbúskaparins, gengishreyfingum og svo framvegis.

Í viðskiptahagfræðinni taka nemendur fastan kúrsakjarna í hagfræði en byggja síðan á þeim grunni með því að velja kúrsa í viðskiptadeild. Hið sama á við um fjármálahagfræði – nemendur taka fastan hagfræðikjarna með áherslu á stærðfræði og tölfræði en byggja síðan á þeim grunni með fjármálakúrsum.

Ég held að báðar þessar gráður henti mjög vel fyrir íslenskt atvinnulíf. Samtímis er markmiðið að skerpa fókusinn á hinni eiginlegu BS gráðu í hagfræði og leggja meiri áherslu á að nemendur læri að beita menntun sinni með sjálfstæðum hætti hvort sem er í rannsóknum eða hagnýtingu sem sérfræðingar í atvinnulífinu.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .