Hið opinbera hafði á síðasta ári um 150 milljarða króna í tekjur af skattheimtu á fjármagn á síðasta ári eða um 20% af heildarskatttekjum ríkis og sveitarfélaga. Fjármagnstekjuskattur á Íslandi er 20% og er almennt lægri en gengur og gerist á öðrum Norðurlöndum. Fjármagnstekjuskattur leggst á nafnávöxtun fjármagns en það þýðir að verð­ bólga veldur því að skattlagningin verður hærri á sparnað en ella. Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, benti á þessa neikvæðu afleið­ingu fyrirkomulags við innheimtu fjármagnstekjuskatts á fundi VÍB um stöðu og stefnu íslensks skattkerfis í síðustu viku.

Að mati Viðskiptaráðs er það heppilegra að fjármagnstekjuskattur sé lagður á raunávöxtun fjármagns. „Við teljum að það sé tæknilega vel mögulegt,“ segir hann. „Við höfum nú þegar mikla reynslu af muninum á nafn- og raunávöxtun í fjármálakerfinu m.a. í formi verðtryggðra lána. Skattlagning raunávöxtunar myndi eyða þessu hvatamisræmi sem ég var að lýsa. Að lokum er þetta líka gott vegna þess að þetta dregur úr hvata stjórnvalda til þess að skapa verðbólgu.

Því hærri sem verðbólgan er undir núverandi fyrirkomulagi, því meiri eru tekjur stjórnvalda af fjármagnstekjuskattinum. Það er ekki fyrirkomulag sem við teljum að sé heppilegt, að stjórnvöld hagnist á verðbólgu.“ Sem stendur er fjármagnstekjuskatturinn 20% en að sögn Björns hefur Viðskiptaráð ekki áætlað hversu hátt skatthlutfallið á raunávöxtun ætti að vera. „Við viljum með þessu aðskilja umræðuna um skattalækkanir og fyrirkomulag skattheimtu. Við erum að tala hér um kerfisbreytingu á skattkerfinu til að draga úr neikvæð­ um áhrifum skattkerfisins á hegðun. Skattheimta á raunávöxtun þyrfti að vera nægilega hófleg til að fólk sæi sér hag í því að spara,“ segir Björn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .