Greiningafyrirtækið Maplecroft hefur tekið saman lista yfir þau ríki í heiminum þar sem barnaþrælkun er verst. Það er að segja þar sem börn vinna tímunum saman við óhreinar aðstæður og njóta hvorki menntunar né annarra grundvallarréttinda.

Á toppi listans trónir Afríkuríkið Eritrea, en þar á eftir kemur Sómalía, Kongó, Mjanmar, Súdan, Afganistan, Pakistan, Zimbabve og Jemen.

Á vef CNN segir að fátækustu ríki heims séu jafnframt þau ríki þar sem barnaþrælkun er mest. Það er vegna þess að í þeim aðstæðum þurfa börnin að hjálpa fullorðnum að færa björg í bú. Aftur á móti getur staðan líka verið slæm í miklum efnahagsstórveldum á borð við Kína, Rússland, Indland og Brasilíu. Þar er líka brotið á rétti barna.

Í skýrslunni kemur einnig fram að mansal á börnum í vinnuþrælkun eða kynlífsþrælkun sé mikið vandamál í heiminum.