*

þriðjudagur, 1. desember 2020
Innlent 13. febrúar 2020 13:57

„Hér er verið að misbeita valdi“

Katrín Olga Jóhannesdóttir var harðorð í garð Samkeppniseftirlitsins í ávarpi sínu á Viðskiptaþingi.

Ritstjórn
Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands, á þinginu.

„Nú ætla ég að ræða við ykkur málefni sem ég ætla algjörlega að viðurkenna fyrir ykkur að ég treysti ekki tungunni minni til að ræða það blaðlaust,“ sagði Katrín Olga Jóhannesdóttir, fráfarandi formaður Viðskiptaráðs Íslands, í ávarpi sínu á Viðskiptaþingi sem nú stendur yfir.

Málefnið sem henni var svo hugleikið er staðan í samkeppnismálum og það lagaumhverfi sem atvinnulífinu er þar búið. Sagði Katrín Olga að það væri mun þrengra hér en í nágrannalöndum og þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Bein útsending: Streymi frá ræðum á Viðskiptaþingi

Í ræðunni sagði Katrín Olga að í formannstíðs hennar hafi Viðskiptaráð beitt sér fyrir breytingum í þessum efnum í þeim efnum en „því miður [hefði] staðan lítið breyst.“ Samkeppniseftirlitið hefði hreðjatak á stjórnvöldum og atvinnulífinu.

„Beðið er í marga mánuði eftir niðurstöðu í samrunamálum og þegar hún kemur vekur hún oft furðu. Fyrirtækjum er haldið í gíslingu stofnunarinnar í allt að tíu ár með því að viðhalda málum sem ekki eru kláruð. Enginn forráðamaður fyrirtækis þorir að stíga fram af ótta við að vera hegnt fyrir slíkt. Hér er verið að misbeita valdi,“ sagði Katrín Olga.

Sagði hún stöðuna ekki boðlega. Samkeppniseftirlitið ætti ekki að stýra íslensku viðskiptalífi heldur hafa með því vakandi auga og viðhafa sanngjarnt eftirlit en ekki stýra þróun markaðarins. Nauðsynlegt væri að aðlaga sig að breyttum heimi viðskipta þar sem samvinna vinnur þungt. Samkeppniseftirlitið mætti ekki vera dragbítur í þeim efnum.

„Og ég tala nú ekki um, þegar við erum með löggjöf sem er svo matskennd þá er þetta spurning um persónur og leikendur. Það er með ólíkindum að eftirlitinu takist trekk í trekk að láta viðskipta- og atvinnulífið líta út sem sakamenn sem vilja neytendum allt hið versta. Ég hafna þeim málatilbúnaði því algjörlega. Neytendur skipta viðskiptalífið máli. Hér er alið á „við og þið“ hugsunarhætti,“ sagði Katrín Olga og uppskar lófaklapp í salnum.