Samkvæmt nýlegri rannsókn hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, eru sunnanvert Þýskaland, austanvert Austurríki og Eistland þau svæði í Evrópu þar sem launamunur kynjanna er mestur, sé horft til tímakaups. Á þessum svæðum höfðu karlar að jafnaði meira en 25% hærri tekjur á hverja unna vinnustund heldur en konur á síðasta ári.

Af 276 svokölluðum NUTS 2 svæðum, sem eru landfræðieiningar skilgreindar af hagstofu Evrópusambandsins, mældust konur með hærra tímakaup en karlar á fórum svæðum á síðasta ári. Þetta eru annars vegar sunnanverð Ítalía og Sardinía, og hins vegar svæði í austanverðu Póllandi.

Alls staðar í Evrópu vinna karlar fleiri vinnustundir í aðalstarfi heldur en konur. Í Austur-Tyrklandi, Norður-Skotlandi og svæði í norðanverðu Hollandi var munurinn á fjölda vinnustunda yfir 12,5 stundir á viku á síðasta ári. Aftur á móti er mun algengara að konur vinni í tækni- og vísindastörfum heldur en karlar, nánast alls staðar í Evrópu. Vestur-Þýskaland og Sviss eru einu svæðin í Evrópu þar sem karlar eru líklegri til að vinna við tækni og vísindi heldur en konur.

Launamunurinn 17,7% á Íslandi

Á Íslandi voru karlar að jafnaði með 17,7% hærra tímakaup en konur og unnu 8,6 fleiri vinnustundir í viku en konur að jafnaði á síðasta ári. Íslenskar konur voru 8,9% líklegri til að vinna við vísindi og tækni heldur en karlar hér á landi.

Nánar er hægt að lesa um rannsókn Eurostat á vef stofnunarinnar . Rannsóknin náði til ríkja Evrópusambandsins og nokkurra annarra ríkja, þar á meðal Tyrklands, Noregs, Sviss og Íslands.