Claes Nilsson, sem hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá ORF Líftækni, er fæddur og uppalinn í Svíþjóð en hann hefur búið í bæði Bandaríkjunum og Finnlandi stóran hluta starfsævi sinnar. „Mitt hlutverk innan ORF felst í að vinna náið með forstjóra og starfsmönnum í að móta árangursríka stefnu í sölu og vöruþróun með það að markmiði að auka áhrif fyrirtækisins á alþjóðamarkaði,“ segir Claes.

„Ég er fullur tilhlökkunar fyrir þessu starfi enda um spennandi fyrirtæki að ræða. Ég vildi verða hluti af íslensku samfélagi svo ég var að líta í kringum mig eftir starfi hér á landi um svipað leyti og þeir auglýstu. Ég er ánægður með að bakgrunnur minn virðist passa þeim vel og geti nýst ORF til framdráttar, sér í lagi í ljósi reynslu minnar af alþjóðlegum viðskiptum, opnun nýrra markaða og vöruþróun.“

Claes hefur síðustu rúmu tvö árin haft annan fótinn hér á landi en hann býr með Elínu Maríu Björnsdóttur og tveim dætrum hennar, 14 og 18 ára, en sjálfur á hann þrjú börn í Finnlandi á aldrinum 7, 11 og 14 ára sem heimsækja hann eins og oft og þau geta.

„Ég hef verið að vinna í Bandaríkjunum en eytt einni til tveimur vikum í senn hér á landi síðustu tvö árin. Síðan kemur bara sá tími í lífinu að maður vill einfalda lífið í stað þess að ferðast stöðugt á milli Finnlands, Íslands og Bandaríkjanna,“ segir Claes um ástæðu þess að hann ákvað að flytja alfarið hingað til lands.

Í frítíma sínum nýtur Claes þess að vera með fjölskyldu sinni auk þess að stunda útivist, skíði og hlaup.

„Ég kom fyrst til Íslands 17 ára gamall á leið minni til Bandaríkjanna, mig óraði ekki fyrir því þá að þetta yrði mitt heimaland síðar á ævinni en svona er lífið og ástin stundum óútreiknanleg,“ segir Claes. „Þegar ég hljóp Reykjavíkur maraþon á Menningarnótt stuttu eftir að ég kynntist Ellu upplifði ég náttúruna, menninguna og orkuna sterkt. Mér varð þá strax ljóst að hér gæti ég átt heima, henni við hlið.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .