Hönnuðurinn Hera Guðmundsdóttir hefur hafið störf hjá hönnunarmerkinu FÓLK Reykjavík við kynningar, markaðs- og sölumál í Evrópu. Hún kemur til fyrirtækisins frá franska tískumerkinu Lemaire, þar sem hún hefur starfað frá árinu 2017.

Hera hefur reynslu af störfum í hönnun og listum bæði hér á landi og erlendis. Fyrir utan störf sín hjá Lemaire, þar sem hún var ráðgjafi söluteymis, hefur hún starfað sem verkefnastjóri hjá Myndlistarráði, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar og Listahátíð. Þá hefur hún starfað sem hönnuður og verkefnastjóri hjá Yeoman og Yazbukey í París. Hún hefur líka lokið BA-prófi í textíl- og fatahönnun frá Listaskóla Íslands.

„Það er mikill fengur fyrir FÓLK að fá Heru í vaxandi teymið okkar, hún kemur með nauðsynlega þekkingu á sölumálum í skapandi greinum beint frá París og við erum ánægð að fá hana til starfa,“ segir Ragna Sara, stofnandi og eigandi FÓLKs.