"Dómstóllinn telur að þetta sé í lagi og þá er það bara þannig," segir Ragnar H. Hall lögmaður kröfuhafa sem fór fram á að Dróma, slitastjórn Frjálsa Fjárfestingarbankans yrði vikið frá og nýir menn skipaðir í stjórnina. Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur féllst ekki á kröfu Ragnars í úrskurði sínum.

Ástæðan fyrir því að krafan var lögð fram var að þrenn mánaðarmót höfðu liðið án þess að slitastjórnin hafi sent hjónum endurútreikning á lánum þeirra. Hjónin unnu mál gegn Dróma í Hæstarétti í febrúar.  Rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að Dróma væri óheimilt að reikna seðlabankavexti aftur í tímann á gengislán hjónanna.

Ragnar sendi bréf til Héraðsdóms þar sem hann setti fram kröfuna og boðaði Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari í kjölfarið til fundar þann 11. maí. Á fundinn mættu Ragnar Halldór Hall hrl. fyrir hönd kröfuhafa og þau Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl. og Hlynur Jónsson hrl., fyrir hönd slitastjórnar.

"Á fundinum reifuðu lögmenn beggja aðila sjónarmið sín og lögðu fram gögn til skoðunar. Að því loknu óskaði dómari eftir afstöðu lögmanns kröfuhafa til þess hvort hann héldi fast við kröfu sína um að slitastjórn yrði vikið frá og óskaði lögmaðurinn eftir því að láta uppi afstöðu sína til þess síðar í vikunni. Með bréfi 18. maí sl., barst dóminum bréf lögmannsins þar sem sjónarmið hans eru reifuð enn frekar. Þá barst dóminum bréf slitastjórnar Frjálsa fjárfestingabankans hf., 21. maí sl., þar sem fram koma sjónarmið slitastjórnar.

Að virtum þeim skýringum sem fram komu á ofangreindum fundi sem haldinn var 11. maí sl., og þeim gögnum sem þá voru lögð fram til skoðunar fyrir héraðsdómara og lögmann kröfuhafa, verður ekki fallist á kröfu lögmanns kröfuhafa um að víkja slitastjórn frá og skipa nýja menn í hennar stað." segir meðal annars í úrskurðinum.