Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag kröfum Samherja og dótturfélaga um að sérstakur saksóknari afhendi gögn sem lagt hefur verið hald á í tengslum við rannsókn á meintum brotum á gjaldeyrislögum. Samherji mun kæra til Hæstaréttar, að því er fram kemur á vef RÚV.

Málið snýst um gögn sem lagt var hald á við húsleit hjá Samherja fyrir um tveimur árum. Megninu af áþreifanlegu gögnunum hefur verið skilað aftur en nokkrir kassar eru enn hjá sérstökum saksóknara. Samherji, og dótturfélög fyrirtækisins, kröfðust þess að gögnunum yrði skilað og afritum eytt en héraðsdómur hafnaði kröfunni. Sérstakur saksóknari telur gögnin skipta máli og héraðsdómur féllst á að ekki skuli hrófla við gögnunum á meðan rannsókn málsins stendur yfir.