Héraðsdómur Reykjavíkur felldi fimmtudaginn 28. nóvember dóm í máli Ólafs Ólafssonar, fjárfestis, gegn ríkissaksóknara og íslenska ríkinu. Ólafur leitaðist við að fá fellda úr gildi synjun endurupptökunefndar á beiðni hans um endurupptöku í svonefndu Al Thani-máli.

Við aðalmeðferð málsins fyrir Héraðsdómi þann 30. nóvember staðfestu þrjú vitni að þau hefðu á sínum tíma ekki rætt við Ólaf um ákveðin atvik í málinu. Um er að ræða lykilatriði í sakfellingu Ólafs í Hæstarétti, sem dró samkvæmt vitnisburðinum ranga ályktun um aðkomu Ólafs af fyrirliggjandi gögnum í málinu.

Héraðsdómur kemst að þeirri niðurstöðu að þessi málsástæða endurspegli aðeins efasemdir um að lögfull sönnun hafi verið komin fram um að Ólafur hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök. „Með henni eru hins vegar ekki færð rök fyrir því að verulegar líkur séu á því að mat réttarins á framlögðum sönnunargögnum hafi verið rangt,“ segir í dómnum.

Umrædd vitni voru Bjarnfreður Ólafsson lögmaður sérhæfður í skattarétti, Eggert J. Hilmarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Kaupþings í Lúxemborg og Ólafur Arinbjörn Sigurðsson, sérfræðingur í verðbréfamarkaðsrétti. Um er að ræða lykilatriði í málarekstrinum á hendur Ólafi sem var hljóðritað símtal Bjarnfreðs og Eggerts.

Í tilkynningu lýsir Ólafur Ólafsson yfir vonbrigðum með ákvörðun Héraðsdóms.

„Frá upphafi hef ég haldið fram sakleysi mínu í þessu máli og sýnt fram á að mér var ekki kunnugt um þau atriði sem ég var upphaflega sakfelldur fyrir. Þrjú vitni staðfestu fyrir dómi í nóvember síðastliðnum að mat Hæstaréttar á sönnunargögnum sem leiddu til sakfellingar var rangt. Ég get ekki annað en lýst yfir vonbrigðum með að héraðsdómur horfir algjörlega framhjá framburði þriggja einstaklinga sem einir geta útskýrt efni samtals sem hefur verið mistúlkað af dómstólum. Í því felst lítið réttlæti. Þá þykir mér sérstakt í réttarríki að það standist skoðun að fjölskylduvinum dómenda sé falið að endurskoða niðurstöður þeirra,“ segir Ólafur.

Í tilkynningunni kemur fam að Héraðsdómur hafi ekki fallist á að ógilda ætti úrskurð endurupptökunefndar þrátt fyrir að einn nefndarmaðurinn, Kristbjörg Stephensen, væri náinn vinur eiginkonu forseta Hæstaréttar sem var einn dómenda í Al Thani málinu. Sá vinskapur hefur staðið yfir í 31 ár en vinkonurnar hafa hist á heimilum vinkvenna í sjö manna saumaklúbbi annan hvern mánuð til viðbótar við ferðalög erlendis auk annarra viðburða þar sem vinir eiga gjarnan samleið. Í augum stefnanda hefði verið eðlilegast fyrir nefndarmanninn að lýsa sig vanhæfan í stað þess að sækja það fast að eiga sæti í endurupptökunefnd og úrskurða þar með um dómsmál eiginmanns vinkonu sinnar.

Bæði Kristbjörg Stephensen og Ásmundur Helgason, héraðsdómari, sem kvað upp dóminn, hafa verið skipuð dómarar við Landsrétt, sem tekur til starfa um áramótin.