Héraðsdómur Reykjavíkur er harðorður í garð ákæruvaldsins í niðurstöðu sinni í Baugsmálinu svokallaða. Eins og komið hefur fram þá voru ákærðu fundin sek um ákveðin atriði í ákæru, en m.a. vegna þess sem dómurinn kallar óréttlætanlegan drátt á rannsókn málsins var ákveðið að fresta ákvörðun refsingar.

Í niðurlagi dómsins heldur gagnrýnin á ákæruvaldið áfram. Þar segir að ákærunni hafi fylgt skjöl í þúsundatali, en ákæruvaldið hafi einungis stuðst við lítið brot af þeim við sönnunarfærslu í málinu.

Segir í dómsorði: „Var augljóslega ekki hugað að því að fjarlægja óþörf skjöl úr rannsókninni þegar ákæra var ráðin, andstætt reglum XVI. kafla laga um meðferð sakamála. Þá er skjalaskráin, sem fylgir gögnunum óaðgengileg og nærri ónothæf sem efnisyfirlit. Virðist hún enda miðuð við þarfir þeirra sem söfnuðu og röðuðu skjölunum undir rannsókninni. Hefur þetta valdið dómendum og verjendum umtalsverðri fyrirhöfn og töfum, allt frá því að farið var að fjalla um réttarfarsatriði í málinu snemma árs 2009. Samkvæmt þessu, og eftir úrslitum málsins, þykir mega ákveða að málsvarnarlaun verjenda ákærðu verði að hálfu leyti lögð á ríkissjóð og að hálfu á ákærðu.“