Héraðsdómur Reykjavíkur lækkaði í dag sekt Samkeppniseftirlitsins á hendur Valitor sem stofnunin lagði á fyrir tveimur árum síðan fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu og brot á skilyrðum fyrri ákvörðunar eftirlitsins. Upphaflega nam sektin 500 milljónum króna en héraðsdómur lækkaði hana í 400 milljónir króna.

Að mati Samkeppniseftirlitsins fólst háttsemi Valitor í því að fyrirtækið verðlagði þjónustu sína í færsluhirðingu vegna debetkorta undir breytilegum kostnaði á árunum 2007 og 2008. Með þessari undirverðlagningu hafi félagið verið líklegra til að fá samninga við söluaðila um færsluhirðingu vegna kreditkorta sem talin sé arðsamari þjónusta.

Valitor kærði ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem staðfesti hana í heild sinni í október 2013. Var það mat nefndarinnar að misnotkun Valitors á markaðsráðandi stöðu sinni og brot á fyrrgreindu skilyrði í eldri ákvörðun séu alvarleg.

Héraðsdómur taldi hins vegar að brot Valitor hefði tekið til skemmri tímabils en lagt var til grundvallar hjá áfrýjunarnefnd. Var sektin þess vegna lækkuð, en þó er hún hæsta sekt sem dómstólar hafa dæmt í málum sem varða misnotkun á markaðsráðandi stöðu.