Tillaga um að Reykjavíkurborg muni óska eftir viðræðum við innanríkisráðuneytið um flutning Héraðsdóms Reykjavíkur af Lækjartorgi á Lögreglustöðvarreitinn við Hlemm var lögð fram á fundi borgarráðs í dag. Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, segir frá þessu á fésbókarsíðu sinni.

Héraðsdómur Reykjavíkur er núna á Lækjartorgi. Umræðan um að flytja hann annað er ekki ný af nálinni. Jón Gnarr borgarstjóri sagði til dæmis árið 2010 að hann vildi ekki hafa Héraðsdóm Reykjavíkur á Lækjartorgi. „Ég held að hann ætti að flytja sig eitthvað annað svo hægt sé að nýta húsnæðið í eitthvað lifandi og skemmtilegt, markaði eða menningarstarfsemi,“ sagði Jón í dagbók borgarstjóra. Hugmyndir að staðsetningu hafa aftur á móti ekki verið ræddar af alvöru fyrr en nú.

Húsnæði Héraðsdóms Reykjavíkur, Dómhúsið við Lækjartorg, samanstendur af tveimur byggingum. Syðri byggingin var upprunalega húsnæði Íslandsbanka en sú nyrðri var upprunalega verslunarhúsnæði reist af Páli Stefánssyni.