Héraðsdómur Reykjaness hefur kveðið upp úrskurð þess efnis að jörðin Vatnsendi í Kópavogi, ásamt öllu því sem eigninni fylgir, skuli vera meða eigna dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sem lést þann 13. nóvember 1996.

Í málinu tókust á tveir hópar innan sömu fjölskyldu, annars vegar erfingjar Magnúsar Hjaltested, elsta sonar Sigurðar Kristjáns, og hins vegar aðrir erfingjar Sigurðar sem og erfingjar seinni eiginkonu hans. Samkvæmt niðurstöðu Héraðsdóms hlaut Magnús Sigurðsson Hjaltested ekki eignina Vatnsenda til eignar, heldur aðeins afnota- og nytjarétt á jörðinni. Þetta þýðir að Þorsteinn Hjaltested, sonur Magnúsar, er ekki eigandi jarðarinnar, en hann er skráður eigandi hennar núna.

Sóknaraðilar í málinu telja að Magnús og Þorsteinn hafi persónulega tekið við greiðslum, sem með réttu hefðu átt að renna til allra erfingja Sigurðar Kristjáns, m.a. frá Kópavogsbæ vegna eignarnáms á hluta Vatnsendalandsins. Um þennan ágreining verður hins vegar fjallað við skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns, en ekki í þessu dómsmáli.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness.