Í máli Kirkjugarða Reykjavíkur gegn Útfararþjónustunni var Útfararþjónustan sýknuð af 471.000 króna kröfu Kirkjugarðanna á grundvelli aðildarskorts. Í dómnum var því ekki tekið á því sem telja mætti mikilvægari spurningu, þ.e. hvort umdeild gjaldheimta hafi yfir höfuð verið lögleg.

Í desember 2011 fengu útfararstofur bréf frá Kirkjugörðum Reykjavíkur um að athafnarými í Fossvogi yrðu ekki lengur til notkunar án endurgjalds, heldur hefði verið ákveðið að hefja frá og með 1. janúar 2012 innheimtu þóknunar vegna kistulagningarbæna og útfara í Fossvogi.

Í raun er um gjald að ræða sem aðstandendur hinna látnu eiga að greiða, en Kirkjugarðar Reykjavíkur vildu innheimta gjaldið frá útfararstofunum, sem svo myndu innheimta það frá aðstandendum. Útfararþjónustan hefur frá upphafi haldið því fram að gjaldtakan ætti sér ekki stoð í lögum eða gjaldskrám. Yrði hins vegar sýnt fram á réttmæti gjaldsins kæmi til sérstakrar skoðunar hvort fyrirtækið væri reiðubúið að taka að sér að gerast innheimtuaðili vegna þessa tiltekna gjalds.

Í dómnum kemur fram að ágreiningnum hafi verið vísað til umboðsmanns Alþingis, sem sendi innanríkisráðherra bréf þar að lútandi. Í bréfi ráðherra kemur fram að ráðuneytið telji að sérstaka lagaheimild þurfi fyrir gjaldtöku athafnarýma og að unnið sé að frumvarpi til breytinga á lögum. Umboðsmaður sagði að svar ráðuneytisins verði ekki skilið öðruvísi en svo að það telji ekki lagaheimild til að innheimta hin umdeildu gjöld. Gjaldtakan sé því ólögmæt.

Eins og áður segir tók héraðsdómur ekki á þessu álitamáli. Dómurinn tók þá afstöðu að um einhliða ákvörðun Kirkjugarða Reykjavíkur væri að ræða og að ekki væri hægt að skikka Útfararþjónustuna til að innheimta gjöldin gegn vilja fyrirtækisins. Kirkjugarðarnir geti alltaf snúið sér til aðstandenda hins látna og krafið þá um greiðslu. Komst dómurinn því að þeirri niðurstöðu að Útfararþjónustan ætti ekki aðild að málinu og var hún því sýknuð. Kirkjugörðunum var gert að greiða málskostnað Útfararþjónustunnar, 1,4 milljónir króna.