Máli gegn forstjórum olíufélaganna var vísað frá dómi í dag, en þeir Einar Benediktsson, forstjóri Olís, Kristinn Björnsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs og Geir Magnússon, fyrrverandi forstjóri Kers, voru ákærðir fyrir að hafa átt ólöglegt samráð sem forsvarsmenn fyrirtækjanna. Í úrskurði Héraðsdóms Reykavíkur segir meðal annars:

"[Er] fallist á með ákærðu að verknaðarlýsing ákæru sé í heild svo óljós, þegar kemur að tilgreiningu á háttsemi ákærðu, að ekki sé unnt að verjast henni á fullnægjandi hátt."

"[E]r það álit dómsins að 10. gr. sam­keppnis­laga veiti ekki viðhlítandi lagastoð til að unnt sé að refsa einstaklingum fyrir þá háttsemi, sem þar er lýst, en ákærðu ber að njóta alls skynsamlegs vafa í því sambandi samkvæmt reglunni in dubio pars mitior est sequenda."

"[E]r það álit dómsins að eins og saksókn er háttað í þessu máli sé um svo augljósa og hróplega mismunun að ræða í skilningi 11. gr. stjórnsýslu­laga, sbr. og jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 3. gr. laga nr. 97/1995, að ekki verður við unað, enda liggja engin rök fyrir í málinu, sem réttlætt geta eða skýrt á haldbæran hátt af hverju ákærðu sæta einir ákæru, þrátt fyrir yfir­lýsingu ákæruvaldsins um refsiverð brot annarra yfirstjórnenda olíufélaganna. Er hér um að ræða bersýnilegan annmarka við útgáfu ákæru, sem felur ekki aðeins í sér brot á 111. gr. laga um meðferð opinberra mála heldur einnig brot á fyrrnefndri jafn­ræðis­reglu og leiðir af þeim sökum einn sér til þess að vísa ber ákærunni frá dómi á grund­velli 4. mgr. 122. gr. síðastnefndra laga."