Um áramótin verða þær breytingar gerðar á útgáfu héraðsfréttablaðsins Eystrahorns, að blaðinu verður dreift frítt inn á öll heimili í Austur-Skaftafellssýslu. Hætt verður að selja blaðið í lausasölu.

Með þessu vilja útgefendur blaðsins mæta þeim breytingum sem orðið hafa í fjölmiðlaheiminum undanfarin ár með auknu framboði á hverskonar ókeypis efni segir í frétt á heimasíðu Eystrahorns. Einnig segjast þeir vera að svara kalli auglýsenda um aukna dreifingu blaðsins.

Eftir breytingarnar verður Eystrahorn eini hornfirski fjölmiðillinn sem berst inn á hvert heimili í sýslunni en þau eru í dag 814 talsins samkvæmt upplýsingum blaðsins. Blaðið verður einnig aðgengilegt á netinu.


Ekki verða gerðar breytingar á útliti eða efnistökum blaðsins og auglýsingaverð verður óbreytt segir í frétt Eystrahorns.