Hlutabréf í Herbalife rjúka upp í kjölfar úrskurðar Federal Trade Commission um að framleiðandi fæðubótarefnanna sé ekki að stunda pýramídasvindl. Fyrirtækið þarf engu að síður að greiða 200 milljónir Bandaríkjadala til stofnunarinnar fyrir ósanngjarna og villandi starfshætti.

Niðurstaða FTC telst vera mikill sigur fyrir fyrirtækið, sem er búið að standa í stríði við fjárfestinn William Ackman. Ackman, stofnandi Pershing Square Capital Management, hefur varið yfir 50 milljónum dala í herferð gegn fæðubótarisanum. Herferðin hófst árið 2012, en þá lýsti Ackman því yfir að Herbalife myndi láta Enron lýta illa út.

Skortstaða William Ackman, hefur vakið mikla athygli um allan heim. Milljarðamæringar á borð við Carl Ichan hafa veðjað gegn Ackman. Ichan keypti rúmlega 18% hlut í félaginu og virðist stefna í góða ávöxtun hjá honum.

Ackman hefur ekki átt sjö dagana sæla þetta árið. Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem stór fjárfesting rennur út í sandinn hjá Pershing Square Capital. Fyrra tilvikið tengdist lyfjarisanum Valeant Pharmaceuticals International Inc.