*

þriðjudagur, 28. september 2021
Innlent 1. júlí 2021 08:13

Herbergjanýting var 25,7% í maí

Herbergjanýting á hótelum var 25,7% í maí síðastliðnum og jókst um 16,7 prósentustig frá fyrra ári.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Greiddar gistinætur á öllum tegundum gististaða í maí síðastliðnum jukust um 104,0% samanborið við maí 2020. Þar af jukust gistinætur á hótelum um 173,6%, um 55,6% á gistiheimilum og um 51,6% á öðrum tegundum skráðra gististaða. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar.

„Greiddar gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 181.800 í maí en þær voru um 89.100 í sama mánuði árið áður. Íslenskar gistinætur voru um 60% gistinátta, eða 108.400, en erlendar 40% eða 73.400. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 135.700, þar af 102.800 á hótelum og 46.100 á öðrum tegundum skráðra gististaða,“ segir í frétt Hagstofunnar.

Framboð hótelherbergja dróst saman um 5,7% í maí sl. frá sama tímabili árið 2020. Herbergjanýting á hótelum var 25,7% og jókst um 16,7 prósentustig frá fyrra ári.

„Gistinætur á hótelum í maí voru 102.800 og jókst hótelgisting í mánuðinum í öllum landshlutum. Mest var aukningin á höfuðborgarsvæðinu þar sem gistinætur fóru úr 8.700 í 42.700 á milli ára,“ segir jafnframt í fréttinni.

Gistinætur Íslendinga voru 64.700, eða 63% af umræddum hótelgistinóttum, og erlendar gistinætur voru 38.100 eða 37%.

Á tólf mánaða tímabili frá júní 2020 til maí 2021 var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 914.500. Var um að ræða 76% fækkun frá sama tímabili ári áður. Mest var fækkunin á höfuðborgarsvæðinu eða 86%.