Flugfélögum með bein flug til Bandaríkjanna hefur verið gert að herða öryggiskröfur sínar. Þau þurfa nú að beina aukinni athygli að farsímum og skóm flugfarþega. Ástæðan er sú að bandarísk yfirvöld telja auknar líkur á árás al Kaída hryðjuverkasamtakanna en grunur leikur á að þeim hafi tekist að hanna sprengjur sem má með góðu móti fela í farsímum.

Hið sama gildir um skó, en þekking hryðjuverkasamtakanna á sprengjuhönnun er talin vera þróaðri en áður. Flugfélögum og flugrekstraraðilum sem ekki tekst að uppfylla kröfur Bandaríkjamanna hvað þetta varðar verður mögulega bannað að fljúga til Norður- Ameríku vegna þess. Ekki er hægt að útiloka að vegna þessa verði tafir eitthvað tíðari á flugi til Bandaríkjanna.