Það verður ekki af framsóknarmönnum skafið að þeir eru naskir á að finna flísar í augum vinaþjóða okkar. Í sömu ræðu og formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, bar af flokknum sakir um kynþáttahyggju á miðstjórnarfundi Framsóknar hélt hann því fram að 99% af bandarísku kjöti væru sterasprungið verksmiðjukjöt.

Augljóst er að hann var þar að skjóta viðvörunarskoti í átt að Costco-keðjunni sem vill opna hér verslun. Alhæfing forsætisráðherra hefur þegar verið rekin ofan í hann, enda er fullyrðingin jafnfáránleg og hún er fordómafull. Eflaust mun hann þó standa fastur á sínu þar til bandaríska keðjan hefur verið hrakin úr landi.

Spurningin er hins vegar hvort að þeirri herferð lokinni muni formaðurinn halda ræðu þar sem hann segist móðgaður yfir því hvernig snúið var út úr steraummælunum.

Huginn & Muninn birtust í Viðskiptablaðinu 17. júlí 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn tölublöð.