Rikiskaup, fyrir hönd atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, óskar eftir tilboðum í heildstæða kynningarherferð sem snýr að því að verja störf og auka verðmætasköpun í íslensku samfélagi. Einnig skal sjá um birtingu herferðarinnar í fjölmiðlum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum Atvinnulífsins.

Fjárheimild til átaksins eru 90 milljónir króna með virðisaukaskatti. Kynningarátakið skal leggja áherslu á mikilvægi hringrásarinnar og keðjuverkandi áhrifin sem verða til þegar fólk velur að skipta við innlend fyrirtæki. Slíkt stuðli að því að atvinnustarfsemi helst gangandi, störf almennings eru varin, efnahagslegur stöðugleiki eykst og verðmætasköpun er aukin.

Að kynningarherferðinni standa ferðamála-, iðnaðar‐ og nýsköpunarráðherra og sjávarútvegs‐ og landbúnaðarráðherra, f.h. ríkissjóðs, Samtök atvinnulífsins (SA), Samtök iðnaðarins (SI), Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ), Samtök ferðaþjónustunnar (SAF), Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), Samtök fjármálafyrirtækja (SFF), Samorka og Bændasamtök Íslands.