*

fimmtudagur, 25. febrúar 2021
Innlent 22. janúar 2021 07:34

Herinn vill selja á móti Gamma

Vilja fá nærri 300 milljónir fyrir 500 fermetra einbýlishús beint á móti gömlu höfuðstöðvum Gamma sem fóru á 420 milljónir.

Höskuldur Marselíusarson
Húsið á Garðastræti 38 er beint á móti húsnæðinu sem hjónin Steinunn Margrétar Tómasdóttur og Aðalsteinn Karlsson, sem áður áttu heildverslunina A. Karlsson, keyptu á dögunum fyrir 420 milljónir.
Aðsend mynd

Hjálpræðisherinn hefur sett 512 fermetra einbýlishús í miðborginni á sölu með ásettu verði upp á 279 milljónir króna að því er fram kemur á fasteignavef Morgunblaðsins. Ingvi Kristinn Skjaldarsson einn foringja hersins í Reykjavík segir að því yrði auðvitað tekið fagnandi ef eitthvað álíka verð fengist fyrir húsið. sem stendur á Garðastræti 38, og fékkst fyrir fyrrum höfuðstöðvar Gamma beint á móti.

Það hús, sem stendur á Garðastræti 37, var á dögunum selt fyrir 420 milljónir króna til hjónanna Steinunnar Margrétar Tómasdóttur og Aðalsteins Karlssonar fyrrum eigenda heildverslunarinnar A. Karlssonar að því er Fréttablaðið greindi frá.

„Við værum mjög ánægð ef við fengjum eitthvað í líkingu við það, en kannski er það hús aðeins stærra og eitthvað klassískara í stílnum,“ segir Ingvi Kristinn sem segir að fjárhæðin myndi nýtast vel.

„Andvirðið færi í að fjármagna uppbygginguna á nýja Herkastalanum, þar sem við gefum í kringum 80 manns á dag að borða núþegar, en við erum að opna þar á sama stað einnig veitinga- og kaffisölu. Þá munum við geta boðið þeim sem þess þurfa frían mat meðan aðrir borga sanngjarnt verð sem færi þá í að borga áfram fyrir hina.“

Eignin, sem er skráð sem einbýlishús, stendur á 577 fermetra lóð, en í húsinu eru fjórar íbúðir sem eru að hluta til í útleigu. Í því eru 15 herbergi, þar af 11 svefnherbergi, þrjár stofur og fimm baðherbergi auk 21,5 fermetra bílskúrs.

Ingvi Kristinn segir samtökin ekki lengur hafa þörf á húsnæði niður í bæ en meðan starfsemi þeirra var enn í gamla Herkastalanum í Aðalstræti hafi skrifstofur deildarstjóra samtakanna í Reykjavík verið í húsnæðinu í Garðastræti.

  • Í gamla Herkastalanum við Aðalstræti var löngum rekin gististarfsemi auk samkomuhalds

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma var gamli Herkastalinn seldur á 635 milljónir en Ingvi Kristinn segir kostnaðinn við byggingu nýja kastalans hafa farið yfir 800 milljónir, en samtökin séu þó skuldlaus. Eins og mikið var rætt um fengu trúar- og góðgerðarsamtökin ekki undanþágu frá gatnagerðargjöldum borgarinnar líkt og önnur trúfélög, þar á meðal Samtök múslima sem fengu lóðina við hlið kastalans.

„Við höfum enga sérstaka þörf fyrir að eiga fasteign sem nýtist okkur ekki, og höfum við verið að fækka fasteignum hersins undanfarið. Við höfum verið að selja eignir, meðal annars fyrrum vistheimili á Seltjarnarnesi, og hús á Akureyri, þar sem við höfum þegar keypt annað undir starfsemina,“ segir Ingvi Kristinn, en starfsmenn samtakanna leigja alla jafna húsnæði á vegum þeirra þar sem þau starfa hverju sinni.

„Við störfum eftir ordru kerfi þar sem við getum fengið skipun um að fara eitthvert allt annað að starfa svo það er erfitt að eiga íbúð í þessu starfi. Samtökin hafa á móti keypt aðrar hentugri íbúðir, eina í Rauðagerði rétt hjá nýja kastalanum og hins vegar í Grafarholti en í dag erum við með tvö foringjapör í Reykjavík.“