Hersveitir Norður- og Suður-Kóreu hafa skipst á skotum við landamæri ríkjanna nú í morgun. Átökin upphófust þegar hermenn Norður-Kóreu hófu skothríð yfir landamærin á herbúðir Suður-Kóreumanna, líklega í þeim tilgangi að eyðileggja hátalara sem dreifði áróðri gegn stjórnvöldum í Norður-Kóreu, að því er fram kemur í frétt BBC News .

Varnarmálaráðuneyti Suður-Kóreu hefur staðfest að átök hafi átt sér stað og hefur öryggisráð landsins verið kallað saman. Íbúabyggð í Suður-Kóreu nærri vesturmörkum landamæranna hefur verið rýmd. Engin tíðindi hafa hins vegar borist um mannfall eða skemmdir öðru hvoru megin landamæranna.

Ríkin tvö eiga tæknilega séð enn í stríði þar sem stríðinu, sem háð var á árunum 1950-1953, lauk með vopnahléi en ekki friðarsáttmála. Hafa löndin nokkrum sinnum skipst á skotum á síðustu árum.