Hong Kong er frjálsasta hagkerfi heims, 15. árið í röð, að mati bandarísku Heritage hugveitunnar.

Hugveitan setur þó þann fyrirvara á þetta árið að ný samkeppnislög og reglur um lágmarkslaun muni ógna toppstöðu Hong Kong sem frjálsasta hagkerfi heims.

Heritage mælir á ári hverju efnahagslegt frelsi 183 helstu hagkerfa heimsins en tekið er mið af reglugerðum, gjaldeyrismörkuðum, skattinnheimtu, atvinnufrelsi og svo framvegis.

Hong Kong fær í ár 90 stig af 100 mögulegum og hækkar um 0,3 stig milli ára. Tekið er tillit til tíu þátta sem síðan er skipt niður í fleiri flokka þegar efnahagslegt frelsi er mælt.

John Tsang Chun, fjármálaráðherra Hong Kong segir ríkisstjórn landsins sé staðráðin í að viðhalda mesta efnahagslegu frelsi heims.

„Við lítum svo á að hlutverk hins opinbera sé að gera hagkerfinu auðveldara fyrir. Þess vegna bjóðum við upp viðskiptavænt viðmót þar sem öll fyrirtæki geta keppt á sanngjörnum og hentugum markaði auk þess sem regluverk okkar gerir hinum frjálsa markaði auðveldara um vik,“ segir Tsang Chun.

Í öðru sæti yfir mesta efnahagslegt frelsi er nágrannaríkið Singapúr, með 87,1 stig.

Þá nær Ástralía þriðja sætinu í ár og ýtir Írlandi úr sessi sem aftur á móti lendir í fjórða sæti á meðan Nýja Sjáland er í fimmta sæti.

Bandaríkin lækka úr fimmta sæti niður í það sjötta en helsta ástæðan fyrir því er aukin skattheimta auk mikillar eyðslu hins opinbera sem hluta af þjóðarframleiðslu.

Neðst á listanum, sem fyrr er Norður Kórea sem að mati Heritage er þvingaðast hagkerfi heims en önnur botnsæti verma ríki á borð við Zimbabwe, Kúba og Myanmar.