Herjólfi var siglt í nótt til Hafnarfjarðar til viðgerðar eftir að hægri skrúfa ferjunnar skemmdist í óhappi í Landeyjahöfn á laugardaginn. Haft er eftir Gunnlaugi Grettissyni, rekstrarstjóra Herjólfs, í Morgunblaðinu í dag að verið sé að leita leiða til þess að sinna samgöngum á milli lands og Vestmannaeyja með öðrum hætti á meðan Herjólfur sé í viðgerð. Ekki liggur fyrir hversu lengi hann verður frá.

Fram kemur á vefsíðu Eimskips að stefnt sé að þvi að Baldur leysi Herjólf af á meðan slipptöku stendur. Gert er ráð fyrir að Baldur hefji siglingar í dag, mánudag.

Þá kemur fram í frétt Morgunblaðsins að Flugfélagið Ernir hafi bætt við ferðum alla vikuna vegna ástandsins.