Tölvuleikjaframleiðandinn Vitar Games hefur lokið fjármögnun upp á tæpar 75 milljónir króna með sjóðunum Behold Ventures og Brunnur vaxtasjóður II. Fjármagnið mun renna í áframhaldandi þróun fyrsta leiks Vitar Games, sem er herkænskuleikurinn Dig in.

Fyrirtækið var stofnað fyrr á þessu ári en undirbúningur fyrir stofnun hafði staðið yfir frá árinu 2021. Leikurinn sem um ræðir er innblásinn af fyrri heimsstyrjöldinni þar sem áhersla er lögð á umgjörð hernaðar og hinn mannlega kostnað.

„Það er ótrúleg tilfinning eftir allt harkið að vera kominn með um borð tvo öfluga fjárfestingarsjóði sem sjá ekki bara fyrir fjármagni, heldur búa yfir mikilli reynslu og djúpri þekkingu á leikjaiðnaðinum,” segir Baldvin Albertsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Vitar Games.

Stjórn Vitar Games skipa Sigurlína Ingvarsdóttir fyrir Behold Ventures, Sigurður Arnljótsson fyrir hönd Brunnar Ventures og Runno Allikivi fyrir Vitar Games.

„Okkur þótti hugmyndin að Dig In og nálgun á markað spennandi frá upphafi. Við höfum ekki hingað til fjárfest í syllumarkaði Steam (e. niche gaming) og einspilunarleikjum (e. Single player) en við vitum að markaðurinn er breiður og góð tækifæri leynast þar. Við hlökkum til að taka þátt í vegferð Vitar Games og fylgjast með áframhaldandi þróun Dig in,“ segir Sigurður Arnljótsson, stofnandi Brunns.